10.12.2008 | 16:03
Samfylking í vanda.
Það er allt að verða vitlaust. Björgvin Valur er búinn að kveðja Samfylkingu. Og þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Það er mikill órói í röðum Samfylkingar. Ég hef verið mjög hugsi. Lít á mig sem "die hard" jafnaðarmann. Segi stundum að ég sé framleiðslusinnaður jafnaðarmaður. Ég er einn af þeim jafnaðarmönnum sem fór í fýlu dauðans þegar stækkun álvers í Hafnarfirði var felld í íbúakosningu. Lesi hver sem er það sem hann vill í það.
Ég hef kosið Samfylkingu frá upphafi. Ég er búinn að mótmæla hástöfum því pólitíska mati sem er í gangi hjá Ingibjörgu og þingflokki Samfylkingar. Jafn einfeldningslega og það kannski hljómar þá held ég að ef réttlætið fær enga útrás þá hefur það hrikalegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskt samfélag. Mun verri afleiðingar en ella. Það verður alltaf einhver landflótti en það er mesta og versta hættan. En þessi landflótti verður meiri og varanlegri ef Réttlætið fær enga útrás. Rannsóknarnefndir og aftur rannsóknarnefndir er ekki að virka. Það verður.... VERÐUR einhver að víkja. Það er algjörlega ótækt með öllu að sama fólkið og átti að standa vaktina fyrir almenning sé enn í vinnu.
Samfylking er að gera þau reginmistök að standa ekki meir í lappirnar gegn Sjálfstæðisflokki. Allt vegna þess að núna má ekki rugga bátnum því það er svo mikið að gera. Jæja.. ég er með fréttir. Báturinn er á hvolfi.
Strax eftir bankahrunið og það hefði átt að vera hluti af Neyðarlögum og samkomulagi stjórnarflokka átti að skipta út stjórnendum í FME og SÍ. Samhliða því sem uppstokkun í ráðherraliði hefði verið eðlileg. Þessi leið var ekki farin. En nú er ástandið orðið þannig að það verður að gera eitthvað. Ef haldið verður áfram á sömu braut og ekki verða gerðar breytingar þá mun ástandið bara versna.
Stjórnarflokkarnir verða að taka sig saman í andlitinu og gera eftirfarandi.
1)Skipta um stjórnendur í Fjármálaeftirlitinu og í framhaldi taka til í skilanefndum bankanna. Sá ótrúverðugleiki sem er í gangi þar núna í sambandi við störf þeirra er með öllu óásættanlegur.
2)Skipta um stjórnendur í Seðlabanka Íslands. Það krefst ekki frekari skýringa.
3)Skipta um Viðskiptaráðherra og Fjármálaráðherra. Frekari uppstokkun á ráðherraliði er vel ásættanleg. Hvernig væri að fækka ráðuneytum hið snarasta. Þarf ekki að spara?
4)Ákveða kosningar í vor. Gefa það út hið snarasta. Og þeir sem segja að þá logi allt í kosningabaráttu.... Bara sorry stína.. það logar allt nú þegar í kosningabaráttu.
Ástæðan fyrir því að ég set ekki á aðgerðarlista að sækja um aðild að Evrópusambandinu er einfaldlega sú að fyrr mun frjósa í helvíti en að þessi ríkisstjórn geti komið sér saman um að sækja um aðild að ESB. Það þarf nýja ríkisstjórn til þess. Evrópuumræðan hjá Sjálfstæðiflokk er öll í skötulíki og það sem kemur út úr næsta landsfundi hjá þeim verður skyrhræringur áttjándu aldar af verstu gerð.
Ég er ekki búinn að gefa Samfylkingu upp á bátinn -Ennþá! Og ég ætla að halda áfram að vera ósammála þeim sem leiða þann flokk og rífa kjaft við hvert tækifæri. En auðvitað á ekkert atkvæði að vera í áskrift. Ég er ekkert búinn að ákveða endanlega hvað ég kýs í næstu kosningum. Ég ætla að vera áfram skráður í Samfylkingu því þar er hugsjónum mínum best borgið eins og er. Eins og er! Ef ofangreindur aðgerðarlisti verður aldrei að veruleika og kosningar verða ekki í vor.. þá er aldrei að vita hvar mitt x lendir. Ef það lendir þá einhver staðar!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú vilt skipta út þínu fólki í Seðlabankanum. Skipta út þínu fólki í FME. Skipta út manninum sem hafði mest með hrun bankanna að gera, bankamálaráðherran Björgvin G. og er hann úr Samfylkingunni. Vilt líka að stjórnarsáttmálinn sem flokkurinn þinn skrifaði undir, s.s. með að ESB aðild væri ekki á dagskrá á kjörtímabilinu verði felldur úr gildi. Get ekki með nokkru móti séð að þú eigir nokkurn skapaðan hlut sammerkt með Samfylkiingunni. Samt ætlar þú að halda áfram að styðja þá? Þetta hljómar meira eins og rauða útgáfan af framsóknarflokknum.
joi (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 17:57
Takk fyrir þitt innlegg joi. Lastu síðustu málsgreinina hjá mér? Í góðum hjónaböndum er leyfilegt að vera ósammála. Eða er það bannað í þínum bókum? Hljómar eins og þú sért litaður af bláu útgáfunni af Sjálfstæðsflokknum.
Ég á bara allt sammerkt með Samfylkingu og þess sem hún stendur fyrir þó ég sé ósammála núverandi pólitísku stöðumati. Það eru misstök að hreinsa ekki til í embættismannakerfinu og ráðherraliðinu. Skiptir engu máli hvaða flokksstimpil fólk hefur. Það er algjört aukaatriði í þessu samhengi. Þeir sem áttu fyrst og síðast að standa vaktina stóðu hana ekki... svo einfalt er það.
Jón Halldór Eiríksson, 10.12.2008 kl. 18:31
Sæll Jón, feikna góð færsla hjá þér. Ekki það að ég fyllist einhverri Þórðargleði yfir óförum Samfylkingarinnar. Það vill þannig til að þær ófarir eru ófarir þjóðarinnar líka. Færslan er góð því þú túlkar sjónarmið margra Íslendinga hvar í flokki sem þeir standa. Að sjálfsögðu átti að skipta um toppana all staðar og skipa utanþingsstjórn. Það sem vakir fyrir Ingibjörgu er að troða okkur inn í ESB og það mun ganga betur eftir því sem við hin höfum það meira skítt. Þannig er það bara.
Gunnar Skúli Ármannsson, 10.12.2008 kl. 21:45
Það eru fimm aðilar sem áttu að passa að fjármálafíklarnir drægju okkur ekki svona svakalega út í pollinn.
1. Forsætisráherra er efnahagsráðherra og verkstjóri. 2. Fjármálaráðherra. 3. Viðskiptaráðherra. 4 Seðlabanki. 5 Fjármálaeftirlit. Ingibjörg hélt Viðskiptaráðherra til hliðar og var að höndla með þessi mál. Allur þessi hópur brást og verður að fara frá. ALLUR.
Ef Samfylkingin horfist ekki í augu við þetta og rekur Ingibjörgu og Björgvin ekki út úr ríkisstjórn og af alþingi er hún ekkert skárri en helmingaskiptaflokkarnir. Siðferðilega sjúk.
Neisti (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 01:11
Takk fyrir ykkar innlegg Gunnar og Neisti. Ég heyri það Gunnar að þú ert ekki jafn áfjáður og ég í alvöru samstarf við ESB og það er í himnalagi. Vonandi getur þjóðin kosið um aðildarsamning frekar fyrr en síðar. Þá er það frá.. hver svo sem niðurstaðan verður!
Neisti.. ég er þeirra skoðunar að núverandi ríkisstjórn hefði verið fullkomlega stætt á því að starfa áfram þó lykilaðilar sem áttu að fylgjast með bönkunum hefðu vikið. Þar greinir mér og Samfylkingarforystu allverulega á. Pólitísk ábyrgð er eitthvað sem er íslenskum stjórnmálamönnum mjög framandi hugtak. Ég sé til dæmis fyrir mér að Björgvin G. jafn ungur og frambærilegur maður sem hann er að hann hefði átt greiða leið til baka til áhrifa þó hann hefði sagt af sér ráðherradómi. Ég held að með því að ætla "standa af sér storminn" geti hann klúðrað pólitískum ferli sínum fyrir fullt og allt. Ingibjörg og Geir meta það svo að ef einn ráðherra víki þá þurfi öll ríkisstjórnin að víkja. Það er þvæla.
Jón Halldór Eiríksson, 11.12.2008 kl. 08:29
Ekki búinn að gefa samfylkingu upp á bátinn ennþá... jahérnahér mér sýnist að þér sé best borgið þar á bæ fyrst þú ert ekki búinn að fá nóg af fíflunum í flokknum hahahaa
DoctorE (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 09:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.