23.3.2009 | 01:08
Ályktun VG um ESB
Ályktun VG um ESB er neðanmálsgrein í langloku ályktun um utanríkismál. Ekki við öðru að búast frá VG. En svona lítur þetta út hjá þeim:
Evrópumál
Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrábreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.
Með þessari ályktun er VG að teygja lopann og reyna að tryggja að ekki verði sótt um aðild næstu fjögur árin. Samkvæmt þessu á að bíða eftir nýrri stjórnarskrá og þá á að ræða fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu. Yfirlýsingin gefur engin afdráttarlaus svör um tillhögun aðildarumsóknar nema það augljósa að þjóðin kjósi um aðildina! Sem verður ekki túlkað öðru vísi en svo að það verður krafa VG að hér verði tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla. Fyrst um aðildarspurninguna og svo um aðildarsamninginn.
Það er skýlaus krafa flestra sem kjósa Samfylkinguna í það minnsta að næsta ríkisstjórn gangi tafarlaust til viðræðna við ESB og samningar verði til lykta leiddir og aðildarsamningur verði lagður fyrir þjóðina innan tveggja ára. Mun VG sætta sig við þann hraða? Held ekki. Mín tilfinning er að VG ætlar ekki að taka þátt í að sækja um aðild að ESB. Svo einfalt er það. Þetta mun því miður verða ásteytingarsteinn í komandi stjórnarmyndunarviðræðum. Því miður. Ef Samfylking tekur þátt í annarri ríkisstjórn þar sem ESB umsókn er sett í salt þá fremur flokkurinn pólitískt Harakiri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er náttúrlega fáránleg yfirlýsing. Af hverju vilja VG leiða til lykta "aðild Íslands að ESB" í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef hagsmunum Íslands er "best borgið utan Evrópusambandsins"? – Sjálfsmótsögn, ekki satt? Eða er hér verið að klambra saman tveimur andstæðum viðhorfum til þess að móðga ekki einn arm í þessum flokki, þ.e.a.s. kratísks fólks eins og Höllu Gunnarsdóttur og Davíðs Stefánssonar? En eru þau ekki sams konar Trójuhestar meðal Vinstri grænna eins og Björk Vilhelmsdóttir er það meðal kratanna? Einfaldast er að segja þessu liði að fara heim til sín; það á við í báðum flokkum.
Jón Valur Jensson, 23.3.2009 kl. 03:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.