Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Svanasöngur!

Áttaði mig á sorglegri staðreynd í dag.   Þegar ég sá viðbrögð Ingibjargar við uppsögn Björgvins og eins þegar hún gekk af fundi Geirs.   Ingibjörg Sólrún er ef til vill búin að vera í pólitík.    Næstu dagar verða mjög örlagaríkir.    Ef Samfylking ákveður að stjórna áfram með Sjálfstæðisflokk og enginn fær reisupassann hjá þeim þá er Samfylking búin að vera og um leið ferill Ingibjargar í pólitík, í það minnsta sem Leiðtogi Samfylkingar.

Mér finnst það stórfurðulegt að Ingibjörg hafi ekkert átt með uppsögn Björgvins og uppsagnir Jóns og Jónasar.  Hún lætur eins og þetta komi sem eins og þruma úr heiðskíru lofti og ef ekki væri fyrir frumkvæði Björgvins þá hefði ekkert gerst!!??!!    Það finnst mér miklar fréttir.    Hvað var Ingibjörg þá að plana?   Var hún að plana að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist?    Er bara ekki að fatta.  Eru þessi ummæli Ingibjargar allt einhver pólitískur klækjaleikur?    Ef svo er .... þá er ég búinn að fá nóg af klækjum og prettum.    Alveg sama frá hvað sjónarmiði þetta er skoðað þá hefur Ingibjörg sem Leiðtogi Samfylkingar sett mikið niður í dag.

Og hvað er í gangi með Varaformanninn.   Af hverju er hann ekki hægri hönd Ingibjargar?   Össur virðist alltaf vera þessi sem er við hlið hennar.    Er mögulegt að Ágúst endurómi rödd grasrótarinnar einum of mikið fyrir smekk Ingibjargar?    Það er ekki allt í lagi innan Samfylkingar.

Þessi Svanasöngur er sárari en tárum taki.   Því ég hef haft tröllatrú á Ingibjörgu sem Leiðtoga.   Hún hefur fengið mitt atkvæði mjög lengi.      Nú er ég í fyrsta skipti í vafa eftir áratuga samleið.

 


Hvað er að gerast?

Nú er Björgvin búinn að segja af sér og breytingar verða í FME.   Löngu tímabært.     En þessi gjörningur er tilgangslaus ef SÍ og Fjármálaráðherra fylgja ekki í kjölfarið.    Skyldi það vera rætt á fundi Ingibjargar og Geirs?

"Ég góður, þú vondur."

Nú er ég búinn að fá nóg.   Eftir að hafa hlustað á Geir, Þorgerði og Illuga í dag og gær.   Ég hefði getað sætt mig við samstarf áfram að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.    En valdhroka, hræðsluáróðri og "ég er bestur - ég er ómissandi"  syndrome  Sjálfstæðismanna eru engin takmörk sett.

Nú er ég kominn á sömu skoðun eins og stærstur hluti þeirra sem ennþá fylgja Samfylkingu að málum. Sjálfstæðisflokkinn frá NÚNA.   Honum er ekki viðbjargandi.    Um leið og Þorgerður fyllist auðmýkt og birtist eins og manneskja í viðtölum kemur hún í næsta viðtali og hreytir gamla sjálfstæðishrokanum framan í mann.    

Nóg er nóg.   Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fá algjört frí frá landsstjórninni helst jafnlengi og hann er búinn að vera við völd.


mbl.is Geir með fullt starfsþrek
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fornaldarviðhorf

Þetta eru hryllileg skilaboð frá Hæstarétti.     

Óvandað fólk á eftir að nýta sér þennan dóm til réttlætingar á miskunarlausu ofbeldi gagnvart börnum.      Mikið herfilega er barnaverndarlöggjöfin gölluð eða Hæstiréttadómarar siðblindir úr því þeir geta fellt svona dóm.


Bara EF!

Bara ef núverandi Ríkisstjórn hefði borið gæfu til þess að hreinsa út úr efstu stöðum í SÍ og FME strax eftir Hrunið.   Bara EF.    Þá væri ekki þessi bullandi ólga.    Ok.... það væri ólga en fólk hefði strax fengið á tilfinninguna að réttlætið ætti að fá framgang.

En nú þarf núverandi Ríkisstjórn að súpa seyðið af forheimsku og þrjósku Sjálfstæðisflokks og kjarkleysis Samfylkingar að berja í borðið.

Það er vita vonlaust fyrir Ingibjörgu og Geir að láta sig dreyma um að halda í þessa ríkisstjórn án þess að nokkur einasti kjaftur víki.     Fólk verður brjálað.     Janúar mótmælin verða þá barnaleikur miðað við febrúarmótmælin!   Og þá er ég ekkert að vísa til þess að ofbeldið verði ráðandi heldur mun hrynjandinn og staðfesta fólks að halda áfram friðsömum mótmælum tvíeflast.

Það er hryllilega misráðið að fólkið sem bar stærstu ábyrgðina að fylgjast með fjármálakerfinu fyrir þjóðina sitji áfram.   Embættismennirnir með góðu launin og sérfræðiþekkinguna sem áttu að vara þjóðina einmitt við ef eitthvað þessu líkt væri í nánd.    Þveröfugt við hlutverk FME og SÍ þá hafa þessar stofnanir stuðlað að Hruninu.    Er nema von að fólk vilji breytingar.     Og Ef ég heyri Geir enn einu sinni í fjölmiðlum segja að ekki megi persónugera vandann þá springur á mér hausinn!   Þetta er svo ömurleg röksemdafærsla að ekki tekur nokkru tali.    Fyrir utan að þá er merkilegur andskoti með Sjálfstæðismenn að þeir geta persónugert allt heila klappið meðan allt er í "honky dorí" en svo má ekki persónugera Vandann!     Og það er með ólíkindum að eftir að hafa gert svo upp á bak að hálfa væri nóg að þá halda Sjálfstæðismenn ennþá að þeir séu ómissandi...  talandi um súper stórt egó....  Eða öllu heldur súper stóra sjálfsblekkingu.

Og þetta vill ég segja við flokksforystu Samfylkingar:   HALLÓ...  annað hvort verður hreinsað til í SÍ og FME hið minnsta.. (Mjög eðlilegt væri að Fjármálaráðherra og Viðskiptaráðaherra segðu af sér).   En án hreinsunar í SÍ og FME   NÚNA..    er ekki möguleiki á því að þessi ríkisstjórn haldi fram að kosningum nema með snarbrjálað samfélag á herðunum.    Ef engar verða mannabreytingar fram að kosningum þá jafngildir það pólitísku sjálfsmorði Samfylkingar.    Því fylgishrunið verður algjört ef ekkert breytist fram að kosningum.     Þá spái ég Samfylkingu undir 15%.


Appelsínugult stolt!

Undanfarna mánuði hefur maður afar sjaldan fundið fyrir góðum tilfinningum þegar fylgst er með fréttum.     En þegar ég las um mótmælendur sem vörðu lögregluþjóna fyrir fáum svörtum sauðum  þá fylltist  ég stolti og hlýju innra með mér.  Og þegar eiginkona lögregluþjóns þakkaði þeim fyrir í Kastljósinu vöknaði ég bara um augun!    Næst þegar ég mæti niður á Austurvöll mæti ég í appelsínugulu.    Appelsínugula byltingin ræður för hér eftir.    Ég veit það!    

Hér er svo tengill á einn af mínum uppáhaldsbloggurum.    Segir allt sem segja þarf.


mbl.is Appelsínugul mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi leiðir af sér Ofbeldi!

Er lögreglan búin að missa tökin á þessu núna?    300 manns með ólæti að nóttu til.   Enginn í Alþingishúsinu og enginn í Stjórnarráðinu.    Engum stafar hætta af þessum ólátum nema lögreglunni sjálfri.   Eignaspjöll eru í gangi en það er ekki næg ástæða til að nota Táragas.     Þessi aðför lögreglu mun aðeins leiða til meira ofbeldis.    Hvar ertu Geir Jón núna?    Ekki vil ég trúa því að þetta hafi gerst á þinni vakt.    Slösuðust lögreglumenn vegna grjótkasts eftir að táragasi var beitt eða áður en að táragasi var beitt?   Lykilspurning.

Viðbót-Einnig í Kommentum.

Tek það fram að ég er á móti öllu ofbeldi gegn lögreglu.    Og þá skiptir ekki máli hvort kastað er eggjum eða grjóti.   Og fólk á að hörfa þegar lögregla grá fyrir járnum birtist.   Svo einfalt er það.    Fólk á að hlýða fyrirmælum lögreglu án möglunar hvort sem því líkar betur eða ver!    Hvernig getur það verið öðruvísi?

Að þessu sögðu.   Þá er nauðsynlegt að lögreglan haldi jafnvægi og beiti skynseminni.   Það hefur hún gert í flestum tilfellum.   Tilvik hafa komið upp þar sem óþarfa hörku hefur verið beitt og skynsemin ekki ráðið för.    Beiting Táragas á lítinn hóp af mótmælendum þar sem öryggi ríkisborgara er ekki almennt í hættu er stórlega vafasamt svo ekki sé sterkar að orði kveðið.   Það hlýtur að vera algjörlega síðasta úrræði að beita vopnum. Hvað kemur næst á eftir piparúða, kylfum og táragasi?    Það vita allir hvert næsta skref er.  Hver vill það?     

Þetta vil ég líka segja.   Ég var ekki á staðnum.   Ef til vill var tekin ákvörðun að yfirlögðu og vönduðu ráði að beita táragasi.   Ef til vill var þetta nauðsynleg aðgerð hjá lögreglu.   En eitt er víst....  Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi!   Þetta hefur lögreglan í flestum tilvikum hingað til reynt að hafa að leiðarljósi með Geir Jón í fararbroddi.

Við þá sem hér hafa kommentað og vilja láta berja á mótmælendum af fullri hörku og með öllum ráðum vil ég segja:    Þeir hinu sömu og tala svona eru nákvæmlega eins þenkjandi og óstilltir andlega og þeir sem tóku upp múrsteinana í nótt og slösuðu lögreglumennina.   Tilbúnir til að láta hnefavaldið og meiðingar ráða för en ekki manneskjuna í sjálfum sér. 

Ég lít ekki svo á að þeir sem eru að mótmæla séu að mótmæla fyrir mína hönd.  Hef aldrei gert.   Hver og einn getur aðeins mótmælt fyrir sína hönd.    Ég mótmæli fyrir sjálfan mig og engan annann.  Ef einhverjir mótmælendur halda að þeir gangi erinda þjóðarinnar þá eru hinu sömu á stórum villigötum.  Það var  nákvæmlega það sem Ingibjörg Sólrún var að reyna að segja í  Háskólabíói!  

 


mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bless Vodafone og Tal!

Jæja.. ætli sé ekki tími til kominn að gefa hinum einkavædda Síma tækifæri.   Búinn að vera hjá Tal, Vodafone, Hive og Tal síðastliðin 8 ár eða svo.    Náttúrulega fáranlegt að Vodafone eigendur skuli fara með meirihlutaeign  í Tal.    En þetta er allt upp á sömu bókina lagt á þessum blessaða Klaka.
mbl.is Sagt upp og samningi rift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Versti Íslandsníðingurinn.

Finnur Ingólfsson .... Sennilega verstur af þeim öllum.     Músin sem læðist.     Ef einhver hefur pukrast og svindlað í reykfylltum bakherbergjum þá er það þessi maður.      Nýtt sér pólitísk ítök sín til að verða milljarðamæringur á kostnað almennings.     Verstur af þeim öllum.    Spilltari en Dick Cheney.   
mbl.is Milljarðahagnaður á viðskiptum með Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking í vanda.

Það er allt að verða vitlaust.   Björgvin Valur er búinn að kveðja Samfylkingu.   Og þetta er bara toppurinn á ísjakanum.   Það er mikill órói í röðum Samfylkingar.    Ég hef verið mjög hugsi.    Lít á mig sem "die hard"  jafnaðarmann.     Segi stundum að ég sé framleiðslusinnaður jafnaðarmaður.    Ég er einn af þeim jafnaðarmönnum sem fór í fýlu dauðans þegar stækkun álvers í Hafnarfirði var felld í íbúakosningu.   Lesi hver sem er það sem hann vill í það.   

Ég hef kosið Samfylkingu frá upphafi.   Ég er búinn að mótmæla hástöfum því pólitíska mati sem er í gangi hjá Ingibjörgu og þingflokki Samfylkingar.    Jafn einfeldningslega og það kannski hljómar þá held ég að ef réttlætið fær enga útrás þá hefur það hrikalegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskt samfélag.  Mun verri afleiðingar en ella.    Það verður alltaf einhver landflótti en það er mesta og versta hættan.    En þessi landflótti verður meiri og varanlegri ef Réttlætið fær enga útrás.    Rannsóknarnefndir og aftur rannsóknarnefndir er ekki að virka.    Það verður.... VERÐUR einhver að víkja.   Það er algjörlega ótækt með öllu að sama fólkið og átti að standa vaktina fyrir almenning sé enn í vinnu.

Samfylking er að gera þau reginmistök að standa ekki meir í lappirnar gegn Sjálfstæðisflokki.    Allt vegna þess að núna má ekki rugga bátnum því það er svo mikið að gera.   Jæja.. ég er með fréttir.  Báturinn er á hvolfi.     

Strax eftir bankahrunið og það hefði átt að vera hluti af Neyðarlögum og samkomulagi stjórnarflokka átti að skipta út stjórnendum í FME og SÍ.   Samhliða því sem uppstokkun í ráðherraliði hefði verið eðlileg.   Þessi leið var ekki farin.       En nú er ástandið orðið þannig að það verður að gera eitthvað.     Ef haldið verður áfram á sömu braut og ekki verða gerðar breytingar þá mun ástandið bara versna.

Stjórnarflokkarnir verða að taka sig saman í andlitinu og gera eftirfarandi.

1)Skipta um stjórnendur í Fjármálaeftirlitinu og í framhaldi taka til í skilanefndum bankanna.   Sá ótrúverðugleiki sem er í gangi þar núna í sambandi við störf þeirra er með öllu óásættanlegur.

2)Skipta um stjórnendur í Seðlabanka Íslands.   Það krefst ekki frekari skýringa.

3)Skipta um Viðskiptaráðherra og Fjármálaráðherra.   Frekari uppstokkun á ráðherraliði er vel ásættanleg.   Hvernig væri að fækka ráðuneytum hið snarasta.   Þarf ekki að spara?   

4)Ákveða kosningar í vor.   Gefa það út hið snarasta.   Og þeir sem segja að þá logi allt í kosningabaráttu....   Bara sorry stína.. það logar allt nú þegar í kosningabaráttu.

Ástæðan fyrir því að ég set ekki á aðgerðarlista að sækja um aðild að Evrópusambandinu er einfaldlega sú að fyrr mun frjósa í helvíti en að þessi ríkisstjórn geti komið sér saman um að sækja um aðild að ESB.    Það þarf nýja ríkisstjórn til þess.     Evrópuumræðan hjá Sjálfstæðiflokk er öll í skötulíki og það sem kemur út úr næsta landsfundi hjá þeim verður skyrhræringur áttjándu aldar af verstu gerð.

Ég er ekki búinn að gefa Samfylkingu upp á bátinn -Ennþá!   Og ég ætla að halda áfram að vera ósammála þeim sem leiða þann flokk og rífa kjaft við hvert tækifæri.    En auðvitað á ekkert atkvæði að vera í áskrift.   Ég er ekkert búinn að ákveða endanlega hvað ég kýs í næstu kosningum.     Ég ætla að vera áfram skráður í Samfylkingu því þar er hugsjónum mínum best borgið  eins og er.   Eins og er!      Ef ofangreindur aðgerðarlisti verður aldrei að veruleika og kosningar verða ekki í vor.. þá er aldrei að vita hvar mitt x lendir.   Ef það lendir þá einhver staðar!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband